fimmtudagur, desember 15, 2005

Bíó um helgina? hver veit?!

Ég heyrði það einhverntíman sagt að þegar menn gætu gert tölvugerð dýr í bíómynd það vel, að erfitt væri að segja til um hvort að þau væru tölvugerð eður ei að þá væri fullkomnun náð, erfiðasti hjallinn yfirstíginn og að allt yrði leikur einn eftir það..

Þannig er, að ég er eiginlega búinn að vera að leita eftir þessu statt og stöðugt síðan ég heyrði þessu fleygt. Þetta hefur reyndar ekki verið mjög markviss leit en í undir niðri þá hef ég alltaf hugsað með mér þegar ég horfi á tæknibrellumynd “skyldi koma eitthvað tölvugert dýr og ef svo er, hvernig skyldi nú takast til..”

Ég er ekki búinn að sjá King Kong en það verður heldur betur prófsteinn á það hversu nálægt menn eru komnir að ná fullkomnum tökum á þessari tækni og ég verð að játa að þegar ég sá úr henni um daginn þá jókst tilhlökkun mín til muna. Enda risastór gorilla í aðalhlutverki..
Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag þá fór ég að horfa á mynd sem heitir svo mikið sem Chronicles of Narnia, eða Ljónið, Nornin og skápurinn, að ég held á íslensku. Þetta er bresk mynd og hefur þennan dæmigerða breska brag sem ég geri ráð fyrir að flestir kannist við, soldið ófrítt fólk, aðeins grárri veruleiki en sá ameríski og allt einhvernvegin... raunverulegra.

Ég horfði í smástund og þegar komið var að þeim punkti í myndinni að tæknibrellur fóru að birtast þá bjóst ég svosem ekki við miklu, skaut á að þessi mynd yrði bara með þessum dæmigerðu brellum sem eru að tröllríða öllum myndum í dag, þó aðallega þeim sem koma úr draumaverksmiðjunni. Fyrsta brellusenan var eiginlega það góð að ég var hreinlega ekki alveg viss hvort að þetta væru brellur eða ekki en áttaði mig svo á því að það er ekki til neinn leikari með kafloðnar geitslappir og hófa!

Ég hélt áfram að horfa.

Þegar Bjórinn talandi (dýrið, ekki drykkurinn) mætti á svæðið, alveg lýtalaus, eins og vel þjálfað dýr úr dýragarði þá ákvað ég að þetta gengi ekki lengur, slökkti á myndinni og ákvað að ég ætla að sjá hana í bíó um helgina!

Tek að ofan fyrir þeim sem standa að þessari mynd og vona að þeir séu búnir að leggja línurnar hvað tæknibrellur framtíðarinnar varðar því ég var mjög hrifinn af því litla sem ég sá og vona innilega að ég verði ekki fyrir vonbrigðum þegar ég sit í einhverjum bíósal borgarinnar og klára þessa mynd.. jáms, svona á að varðveita barnið í sér.

Batnaðar kveðjurnar fær Fjólsið mitt!
 

blogger templates |