fimmtudagur, júlí 28, 2005

Verslunarmannahelgin!


Wheee!! Það er eiginlega komin helgi hjá mér þar sem ég er í fríi á morgun og bruna úr vinnunni héðan eftir nákvæmlega 53 mínútur.. eða kannski svona 45 mínútur.. hmm gæti endað í hálftíma. Þarf bara rétt að klára nokkur aukaverk og badabimms badabúmm!!! Halli hverfur!

Stefnan er svona mjög líklega kannski án þess að lofa neinu fyrir víst eiginlega alveg örugglega tekin uppí bústað..

..en það er enn á huldu hvaða bústað.. þannig að spennan magnast!

Læt fylgja mynd af takmarki helgarinnar ;)

mánudagur, júlí 25, 2005

Kominn frá Lúndunum.. heill á húfi


Ekkert mál! Það virðist sem þessar sprengjur allar hafi ekki haft mikil áhrif á hinn almenna Lúndúnuarbúa, það gekk allt sinn vanagang þarna nema að maður tók eftir fjölgun lögregluþjóna á götunum og einstaka löggu með vélbyssu. Soldið spes en ekkert sjokkerandi.

Svo var maður bara að bruna um allt á mótórhjóli þarna, ég var sko alveg búinn að steingleyma hvað það er magnað að vera á hjóli!! Aaargghh, nú er ég alveg kominn með bakteríuan aftur! Sem er alls ekki gott þar sem þetta kostar fáránlega mikið að vera að rúntast á þessum elskum, því ekki sættir maður sig við hvaða hjól sem er, það er nokkuð ljóst.

Hmmm... ætlaði að skella inn mynd af mér á hjólinu en nenni ekki að sækja myndavélina strax þannig að ég bæti því við seinna í dag.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

London hera I come!


Uss, búinn að plana ferð til london í smá tíma og akkúrat daginn eftir að ég er búinn að panta og ganga frá öllu þá springur ALLT í London í loft upp!

Svo róast allt aftur... og... springur síðan enn einusinni í dag!! Daginn áður en ég á að fara út! Þetta getur ekki verið eðlilegt, þvílík óheppni!

Sé alveg fram á að þetta verður dýr ferð þar sem maður neyðist til að fara allt í leigubílum.

En ég er orðinn frekar spenntur fyrir því að vakna klukkan 4 í nótt, skella mér í sturtu og bruna útá völl, skemmta mér svakalega vel í London, koma heim á sunnudagskvöld og fara beint uppí virkjunina. Ég bara nenni ómögulega að keyra alla leið í bæinn, sofa hérna heima í nokkra klukkutíma og keyra síðan alla leið aftur útá Reykjanes.
Það er líka búið að vera svo brjálað að gera í vinnunni þannig að ég sé alveg fram á að þurfa að vinna aðeins kvöldið sem ég kem heim :(
En svona er lífið, alltaf nóg að gera..

Ég er alveg viss um að þegar þessu verki er lokið og maður verður farinn að vinna í bænum í næsta verki þá verður það eins og að vera kominn í sumarfrí! Þó að það sé rúmlega ár í það þá er ég alveg farinn að sjá þetta í hillingum..

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Moldrok


Þetta er alveg magnað, það er svo mikið sandrok hérna að ég er allur útí mold og skít eftir að hafa verið að mæla útá svæði.. og ekki bætir úr skák að það eru grilljón tonna beltagröfur að róta upp þúsund rúmmetrum að grjóti og ryki allt í kringum mann.

Hressandi..

En náttúran er nú alltaf falleg hérna útá suðurnesjum, því er ekki að neita. Og sólin skín í heiði þannig að það er nú varla hægt að kvarta mikið.

mánudagur, júlí 18, 2005

Alveg að tapa mér


Það er orðið nokkuð ljóst að ég á eftir að tapa mér alveg í þessu myndadæmi, ætla að birta nokkrar sem ég tók af framkvæmdinni, ok, ekki nokkrar, bara 2 en ætla svo að bæta við smátt og smátt.

Hvað ætli hámarkið sé? Ég hef það alveg á tilfinngunni að eftir ákveðin tíma poppi svona skilaboð upp sem segi að þar sem ég sé kominn með 15 myndir þá þurfi ég að fara að borga fyrir þetta pláss :S


Annars er þetta annars vegar mynd af verkamanni sem er að nota múrbrjót til að útbúa pláss fyrir túrbínuna í virkjuninni og hins vegar mynd sem ég tók af stoltinu mínu, glerveggur sem ég hef haft umsjón með að setja upp.

Gufubaðið knáa


Jæja, hérna er mynd af gufubaðinu sem smiðirnir hafa verið að smíða í frítíma sínum uppí virkjun. Hmm, þyrfti jafnvel að taka nokkrar myndir inní því þegar það er í notkun. Reyndar á eftir að klæða það að utan með bárujárni, en það svínvirkar alveg!
Nú vantar bara að steypa heitan pott og þá verður þetta sko keppnis! Ég held meira að segja að það sé kominn mikill stemmari fyrir því að slá upp fyrir einum sjóðandi heitum!

Bíð spenntur eftir því..

"add image"


Heldur betur kominn tími á að geta skellt inn mynd á bloggið hjá sér án þess að það kosti einhverja brjálaða tölvukunnáttu og mixeringu af alskyns misjöfnum forritum.. sjáum hvernig þetta kemur út..
Hérna erum við nafnarnir að ræða málin í milli-reisugilli uppí virkjuninni sem ég er að byggja (ok, það eru víst nokkrir sem eru mér innan handar í verkinu hehe) og ég var eini maðurinn sem sá sóma minn í að mæta í jakkafötum :P
Kannski ekkert skrítið að þeir sem búa þarna 5 daga vikunnar séu ekki með jakkaföt í rassvasanum.. en þetta var askoti gaman og lyfti mannskapnum heldur betur upp!
Það góða er að sjálfsögðu að þar sem þetta var bara milli-reisugilli, þ.e.a.s. það var verið að afhenda ákveðin hluta af byggingunni þá er nokkuð ljóst að það vera ca 3-4 svona í viðbót! wheee!

föstudagur, júlí 15, 2005

Að líkjast frægu fólki

Það eru margir sem líkjast einhverjum frægum einstaklingum, sumir fá vinnu útá það sem stuntleikarar, sem double-leikarar, sem elvis eftirhermur og svo eru náttúrulega sumir sem njóta bara athyglinnar sem þeir fá.

Svo er til fólk í Ammríkunni sem beinlínis fer í lýtaaðgerðir til að líkjast frægu fólki! Ég var að horfa á MTV-cut´n´slice þátt eitthvað þar sem fylgst er með fólki sem leggst undir hnífinn í von um að þegar það vakni að þá líti það út eins og idolið sitt..

Ég skil það vel að ófrítt fólk vilji gera eitthvað til að bæta útlitið, sérstaklega ef því líður ílla með það hvernig það lítur út af því að útlit er að sjálfsögðu afstætt, það sem einum finnst flott hryllir hinum við. Og sem betur fer..

En það var einn gaur í þessum þætti rétt áðan sem vildi láta breyta sér í Ricky Martin. Ekkert að því þannig séð, alveg jafn gott val eins og hver annar en það sem mér fannst svo skrítið var ástæðan fyrir því að hann vildi breyta sér.
Þetta var alls ekki ómyndarlegur maður, bara ósköp venjulegur latínó gutti.

Og hann átti vinkonu. Búinn að þekkja hana í mööörg ár og alltaf verið hrifinn af henni en ekki þorað að gera neitt í málinu vegna feimni. Þessvegna ákvað hann að breyta sér í Ricky Martin og láta slag standa!

Er ekki allt í lagi með fólk? Mér finnst það alveg hrikalegt að hugsa til þess að einhver vinkona mín til margra ára sem liti bara ósköp vel út og ég kynni vel að meta myndi bara allt í einu mæta á svæðið lítandi út eins og Angelina Jolie! Þó svo að mér finnist það líklega vera ein fallegasta kona í heimi þá á bara að vera til ein slík, ég efast um að einhver eftirlíking myndi gera það sama fyrir mig og originallinn! Og hvaða áhrif myndi það hafa á mann ef einhver manneskja sem maður er búinn að þekkja í mörg ár liti bara allt í einu allt öðruvísi út?!
Þá er ég ekki að tala um að fara í megrun og byrja að hugsa um útlitið, það er bara af hinu góða.

Eða hvað? Er ég bara eitthvað að bulla?

hættir ekki enn

..ligg hérna andvaka búinn að bryðja nokkrar íbúfenplötur..

össs! hef ekki tíma til að vera eitthvað veikur heim á morgun, allt að verða vitlaust í vinnunni :-(

best að slökkva á skjá einum og reyna að ná einhverjum svefni..

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Andskotans rugl

Hvernig stendur á því að maður fer í heimatilbúna gufu í gær, slakar vel á, allir kíkja inní Keflavík á pöbb og fá sér 2 létta, slaka vel á, fara svo heim í vinnubúðirnar, fá sér loku og slaka vel á og svo beint að sofa rétt yfir miðnætti mjög afslappaðir.. en ég vakna síðan með bakverk dauðans sem er að ágerast og eiginlega orðinn það slæmur að ég get ekki staðið beinn, setið beinn og það að ganga er alveg djöfullegt?!

Reyndar er þetta ekki að leiða niður í lappalinga þannig að ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því að þetta sé eitthvað brjósklos EN mikið svakalega er þetta sárt!

Glampandi sól

Ójá, Reykjanesið er heldur betur að taka við sér.. glampandi sól eftir suddann undanfarið og gleðin ríkjandi í allra hjörtum! ok, flestra..

Vantrú.net

Var aðeins að lesa bloggið hennar Mæju þar sem hún linkar inná síðuna vantru.net. Ástæðan er sú að vantrúarmenn eru að skrifa um þennan enfaskiptakúr sem hún er með á síðunni sinni og þeir hafa mikla vantrú (eðlilega, enda vantrúarmenn) á honum.

En það skondna við þessa umfjöllun er það að fyrstu línurnar fara í að fjalla um nafn kúrsin og vísun þess til heilbrigðistofnanarinnar Landsspítalans.
Einnig er efast um fræðilega framköllunn efnaskipta við það að svelta sig.
Einnig er fjallað um mátt vísunarinnar í stofnanir og þá trú og traust sem því á að fylgja.
Einnig er fjallað um völd kirkjunnar í samfélagi.
Einnig er rekin saga kirkjunnar og áhrif hennar á samfélagið í gegnum aldirnar.

Hver segir svo að megrunarkúrar geti ekki skapað háfleyga umræðu á æðra stigi?

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Krús kontról

Var að keyra í vinnuna í morgun og aldrei þessu vant þá var ég á mínum bíl en ekki þessum Lancer sem vinnan úthlutar mér og Bensa til að snattast á milli.

Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikill munur á að keyra þann bíl og minn. En samt, skítt með allan búnað nema einn:

Krúskontról!

Þvílík snilld, sérstaklega á Reykjanesbrautinni þar sem alltaf er verið að taka fólk fyrir of hraðan akstur (held að það sé búið að taka 6 frá því að ég byrjaði hérna)! Þegar maður er með krúskontrólið þá setur maður bara á rétt rúmlega löglegan hraða og er síðan bara að tjilla alla leiðina, ekkert stress eða spenningur.. það munar hvort eð er ekki nema nokkrum mínútum á því að vera á 105 (ekki tekinn) eða 120 ( alveg örugglega tekinn ef mældur).

En það er bara svo askoti dýrt að vera að borga bensínið sjálfur hérna á milli og ekki fær maður kílómetra gjald þar sem ég "á" í raun að nota Lancerinn.. það er samt voða gott að grípa í góðan bíl annað slagið og krúsa á milli.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

War of the Worlds

Smellti mér í að horfa á þessa ræmu um daginn.. ekki gott

Ég held bara sveimér þá að ég hafi aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum með sögþráð, eða öllu heldur söguþráðleysi í bíómynd. Það er ekkert í henni, engin hetja, enginn vondigaur (nema auðvitað geimverurnar en þær koma lítið við sögu sem slíkar), enginn sem fattar allt í einu hvernig hægt er að sigra geimverurnar, ekkert púður lagt í bardaga á milli stríðandi fylkinga, sem er reyndar ekki endilega ókostur en svo gerist bara ekkert í þessari mynd!

Ekkert!

Enginn hápunktur eða miðbik eða upphaf (ok, jú það er upphaf) og endirinn er hvorki fugl né fiskur.

Öss að það sé verið að eyða peningum í svona sorp.. hvað skyldi nú Starship Troopers hafa kostað? Örugglega minna en það kostaði að búa til trailerinn fyrir þessa ómynd sem WoW er.

nóg að gera

Það er svo merkilegt hvað tíminn flýgur áfram þegar maður hefur meira en nóg að gera, ég held að eins og það er þægilegt að þá verði manni einhvernvegin minna úr verki ef það er OF mikið að gera..

Heilinn á manni nær ekki að ganga í eitt, klára það, ganga svo í næsta af því að það eru öll verkefnin með einhverja menn að baki sér sem eru alltaf að pressa á mann og heimta að maður sýni þeim athygli þannig að maður gefur eftir, hættir í því sem maður var nýbyrjaður á (af því að maður var hvort eða er svo nýbyrjaður) og fer að einbeita sér að þessu nýja.

Nú er algjörlega kominn tími á To-Do lista sem verður mjög ítarlegur og uppfærður á klukkutíma fresti og bullandi forgangsraðaður! Þýðir greinilega ekkert annað í þessum bransa.. (",)

svefnröskun

Ég hef ekkert verið að sofa neitt sérlega vel undanfarið.. eins og einn hérna í vinnunni útskýrði í morgun, ef maður sefur ílla þá er það slæm samviska sem er að þjaka mann, hef því miður lúmskan grun um að hann hafi hitt naglan á höfuðið.

Lendi nefninlega stundum í þessu ef ég hef gert eitthvað af mér eða er að gleyma einhverju í vinnunni.. frekar óþægilegt..

Byrja að blogga aftur

Ég skrifaði heilan helling í morgun..

ekkert af viti og ekkert fallegt... tók það strax út þegar ég var búinn að setja það inn..

..en það var ákveðin útrás að skrifa smá þó svo að ég viti að enginn komi til með að lesa það sem fer inná þessa síðu þannig að ég er að spá í að byrja að blogga aftur..

...efast samt um að ég endist eitthvað í þessu..
 

blogger templates |