fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Ótrúlega ófrumlegt... eða hvað?!

Ég tók mig til í gær og tengdi lappann minn við skjávarpann í fundarherberginu hérna uppí virkjun. Myndin sem varð fyrir valinu var T3 eða Terminator 3 með Arnaldi í aðalhlutverki. Þetta er svosem ekki í frásögur færandi nema að ég var alveg viss um að ég væri búinn að sjá myndina. Svo þegar hún byrjar þá kannast ég hreinlega ekkert við eitt né neitt þannig að ég sá fram á að geta skemmt mér alveg ágætlega yfir þessum óséða hasar.

Svo líður á myndina og eins og gengur og gerist þá er að sjálfsögðu svipað þema í þessari mynd og í öllum hinum, vélmenni ferðast aftur í tímann til að drepa Connor, annað eltir til að vernda og þar fram eftir götunum. Ekkert frumlegt en formúla sem hefur virkað hingað til.

Þannig að ég er ekkert að kippa mér upp við það þó svo að Arnold sé á mótórhjóli á meðan hitt vélmennið er á risatrukki, slíkt hefur gerst áður og engin synd í að endurtaka það. Svo fara að koma atriði sem mér finnst minna óþægilega mikið á atriði úr fyrri myndum, sömu setningar, mjög svipaðar staðsetningar, eins farartæki (fékk nánast gubbuna þegar ég sá kranabíla-atriðið! komon!) og ég hugsa með mér að þetta sé líklega ein sú allra lélegasta og mest cheap mynd sem ég hafi nokkurntíman séð um ævina! Gátu mennirnir ekki einusinni reynt að breyta handritinu frá fyrri myndum það mikið að maður fengi í það minnsta ekki hreint og beint dejavu við að horfa á þriðju myndina?!

Eftir að hafa horft á hálfa myndina, yfir mig hneykslaður og alveg að gefast upp á þessari hörmung fara að lifna við minningar úr bíósal í stórborg óttans, þar sem Halli litli situr með popp og kók og er að horfa á þessa sömu mynd rétt eftir að hún var frumsýnd!

Ég held að ég hafi aldrei lent í þessu áður að muna hreinlega ekki nema einstaka brot og brot úr bíómynd sem ég hef séð og hafa ekki einusinni hugmynd um það hvernig hún endar!

Ellimörk? Varla, þetta er svo langt síðan sjáðu til Biggi! Og ég er ekki búinn að gleyma einni einustu mynd fyrir eða eftir þetta atvik!

...svo ég muni til...
 

blogger templates |