Við skötuhjúin horfðum á myndina Syriana í gær og vorum eiginlega bæði jafn ringluð eftir hana. Reyndar sofnaði Hrafnhildur í miðri mynd og þegar hún vaknaði fór hún að spyrja mig hvað væri búið að gerast. Ég gat bara engan vegin svarað henni því ég hafði ekki hugmynd hvað var búið að gerast.. í allri myndinni í heild sinni.
Það getur verið að þetta sé ein af þessum myndum sem maður verður að horfa á nokkrum sinnum til að átta sig á henni því að þetta fyrsta áhorf í gær skilaði engu. Það er engin aðalpersóna, það er aldrei skýrt eða ljóst hvert plottið er og maður flakkar á milli heimshluta alla myndina til að sjá örstutt brot úr lífi persóna sem virðast nánast vera ótengdar.
Það er samt rauður þráður í myndinni, því er ekki hægt að neita. Eins og ég skynjaði hana þá er þetta ádeila á olíufursta, bæði í USA og miðausturlöndum en ég náði ekki alveg inntakinu, hver gagnrýnin var eða hversvegna maður var að fylgjast með viku í lífi þessara manna.
Það vantaði reyndar íslenskan texta á myndina sem gæti skýrt það hversvegna athyglin hélst ekki alveg ótrufluð. Ég er tiltölulega sleipur í engilsaxneskunni en þetta er bara hreinlega það flókin mynd að ef maður tapar þræðinum þá er erfitt að ná honum upp aftur.
En leikurinn stórgóður og gaman að sjá Clooney þéttan á velli og alskeggjaðan.